Anna Þóra Karlsdóttir
myndlistarkona
Guðrún Erla Geirsdóttir menningarmiðlari skrifar 2021:
​
Anna Þóra Karlsdóttir býður gestum og gangandi að njóta listsýningar sinnar DAGSVERKIN sem opnar laugardaginn 20. mars kl. 14:00 í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistafélagsins í Gilinu á Akureyri. Verkin sem textíl-listakonan sýnir nú, eru unnin á síðasta ári í einangrun vegna covid faraldursins. Nokkur þeirra gerði hún á Njáluslóðum, en önnur á Hjalteyri við Eyjafjörð, þar sem hún dvaldi í tjaldi (Yurt) sem á ættir að rekja til Mongólíu.
Verkin eru úr íslenskri ull sem Anna Þóra hefur kembt og skilið togið frá þelinu. Hún nýtir aðeins dúnmjúkt létt þelið - sem hún litar í fjölbreytta tóna - í þunnar slæður sem lagðar eru hver yfir aðra og þæfðar í ferninga. Þegar að er gáð má greina litina sem undir liggja í gegnum efstu slæðurnar. Útkoman leiðir hugann að náttúrunni t.d. himninum í öllum sínum margbreytileika. Verk sem við fyrstu sýn virðist svart, má lesa sem himin er nóttin tekur við af deginum, því það glittir í fjólubláa og rauða tóna undirlaganna, rétt eins síðustu geisla sólarlagsins. Annað verk minnir á ljósa dalalæðu þar sem litir náttúrunnar leynast undir þunnu yfirborðinu. Og í öðrum verkanna er það dagrenning og sólarlag sem kemur upp í hugann er horft er á blöndun litanna.
Heiti sýningarinnar DAGSVERKIN vísar til þess að það tók listakonuna einn dag að vinna hvert verkanna. Einnig kallast titillinn á við þann gífurlega fjölda dagsverka sem unnin hafa verið í Gilinu. Sláturhús var þar og síðar blómleg starfsemi mjólkursamlags KEA sem framleiddi úr þrem milljónum mjólkurlítra árið 1968. Þar í Gilinu hófst einnig starfsemi margra fyrirtækja KEA s.s. málningarverksmiðju, sápugerðar, sælgætis- og gosdrykkjaverksmiðju, brauðgerðar og kjötvinnslu; að því ógleymdu að neðst í Gilinu voru höfuðstöðvar KEA og aðalverslun.
Anna Þóra á að baki farsælan feril á myndlistarsenunni. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga, tekið þátt í samsýningum og verk hennar hafa verið valin á opinberar sýningar t.d. á textílyfirlitssýninguna LISTÞRÆÐIR sem lauk nýlega í Listasafni Íslands. Anna Þóra nam myndlist hér heima og í Svíþjóð og hefur dvalist á vinnustofum erlendis. Hún bjó á áttunda áratugnum á Akureyri og kenndi þá við Myndlistarskólann og Glerárskóla.